15.6.2009 | 09:27
Út úr myrkrinu: Ævisaga Helgu á Engi.
Þessi er bók er ófáanleg held ég, furðulegt að hún skuli ekki hafa verið endurútgefin. Bý yfir því láni að eiga þessa bók. Faðir minn, nú að verða 95 ára, kom mér á bragðið með að meta góðar bækur og þ.a.m. góðar ævisögur og gaf hann mér þessa bók.
Lífsbarátta þessarar konu var ótrúleg. Minningargreinin sem að kemur hér að neðan segir ýmislegt um þessa konu, en er að sjálfsögðu ekki tæmandi. Maður þarf að lesa bókina til að meðtaka hversu mikil hetja var þarna á ferð. ´
Bókin: Út úr myrkrinu: Ævisaga Helgu á Engi, mæli með henni. Kannski fæst hún hjá fornbókasölum.
Helga Larsen, Engi Kveðjuorð Fædd 14. maí 1901 Dáin 14. apríl 1989 Hún Helga
Helga Larsen, Engi Kveðjuorð Fædd 14. maí 1901 Dáin 14. apríl 1989 Hún Helga á engi er dáin. Með henni er genginn einhver athyglisverðasti einstaklingur sem á vegi mínum hefur orðið. Kynni tókust með fólkinu mínu og Helgu meðan bæði bjuggu í Sogamýrinni og héldust þau kynni æ síðan. Ég hef varla verið meiraen 9 ára þegar ég fyrst fór að Engi til sumardvalar. Eftir það átti ég alltaf von á góðu á Engi og sótti mikið þangað.
Minningarnar frá Engi eru óteljandi. Náin samskipti við dýrin á bænum og virðing fyrir jörðinni sem ól bæði menn og skepnur var meðþví fyrsta sem Helga innprentaði í huga minn. Við höfum séð í sjónvarpinu þegar páfinn kastar sér niður og kyssir jörðina þar sem hann er gestkomandi. Ég man reyndar ekki eftir því að hafa séð Helgu gera þetta, en oft strauk hún jörðina með vinnulúnum höndum sínum og blessaði hana. Ég, krakkinn, fylltist einhverri dularfullri lotningu fyrir moldinni og þessari svipsterku konu sem talaði svo fallega um hana og það sem hún gaf af sér.
Helga var landnýtingarmanneskja í bestu merkingu þess orðs. Henni var umhugað að hlúa að landinu og launa því þann ávöxt sem það gaf henni.
Þeir urðu margir pokarnir af hænsnaskít sem við Helga paufuð umst með á bakinu inn á holtið austan við hænsnahúsið á Engi. Þar dreifðum við skítnum með berum höndum milli steinanna og létum blessunarorð fylgja hverri lúku. Það var góður skóli fyrir ungling að vinna við hlið Helgu að þessu verki sem öðrum, ekki síst vegna þessað hún lagði sig fram um að út skýra fyrir mér hvers vegna þyrftiað vinna verkin og hvaða árangri þau skiluðu unnin.
Umgangur við dýrin á Engi var mjög persónulegur. Sérstaklega átti þetta við um hestana, sem Helga elskaði öðrum skepnum meir. Á hestbaki hvarf henni öll þreyta og sálin hóf sig til flugs. Helga lifði margar af ánægjulegustu stundum lífs síns á ferðalögum ríðandi um landið. Sumarið 1962 fór Helga ríðandi vestur í Borgarfjörð og Dali og kom við á Fellsenda þar semég var í sveit. Vakti ferðalag hennar talsverða athygli enda var hún komin af léttasta skeiði og þar að auki ein á ferð. Annars var Helga aldrei ein þegar hrossin hennar voru nálæg. Sex árum síðar reið Helga austur í sveitir og vitjaði átthaganna. Það sumar var ég vinnumaður í Steinsholti, Gnúpverjahreppi, og lét Helga ekki hjá líða að heilsa upp á vin sinn í þeirri ferð.
Fyrir allmörgum árum kom út ævisaga Helgu á Engi. Hún hét "Út úr myrkrinu". Titill bókarinnar segir margt um erfiða ævi þessarar konu. Mótlæti var henni hversdagslegur hlutur en persónuleiki hennar var stór og uppgjöf ekki hugstæð. Helga var aldrei rík af veraldlegum hlutum, en því vænna þótti henni um það sem henni var trúað fyrir. Hver nytjahlutur á heimilinu og búinu var persónugerður og gefið viðeigandi nafn. Útungunarvélin sem gaf búinu mestar tekjur hét Auðbjörg og eina dráttarvélin á bænum var skírð Árvakur. Kaffikannan og þvottavélin fengu einnig sín nöfn og voru aldrei nefnd sínu ópersónulega hlutaheiti.
Þær urðu margar stundirnar semvið áttum saman við Helga, og eftir að ég eltist og komst til meira vits, naut ég þess að koma að Engi, grípa í verk og njóta þess að ræða við hana um ólíkustu mál. Þá spilti það ekki fyrir hvað mér þótti alltaf maturinn góður á Engi. Helga meðhöndlaði mat með virðingu þess sem þekkir af eigin reynslu hvað það er að skorta mat. Hún naut þessað veita vel og margir fóru mettir frá borði hennar. Helga var vinmörg og komu vinir hennar úr öllum áttum og voru ólíkrar gerðar, en allir áttu það sammerkt að þeir komu til þess að njóta þess sérstaka andrúmslofts er ríkti í kringum hana.
Skoðanir Helgu á mönnum og málefnum voru aldrei hálfvolgar og þótti jafnvel sumum nóg um hreinskilni hennar. En svona var Helga. Hálfvelgja og pukur voru henni lítt að skapi. Ég vil að lokum þakka fyrir það að hafa fengið tækifæri til að kynnast þessari konu og votta börnum hennar og barnabörnum samúð mína. (leturbreyting mín)
Steinþór Steingrímsson
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:56 | Facebook
Um bloggið
Stjórnmál, lífsmáti, heilsa
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.