Kannski sækir maður um starf hjá skilanefndum bankanna?

Jæja þá vitum við það, Ísland er við það að þurrkast út af landakortinu, þegar virtur hagfræðingur Gylfi Zoega segir þetta, hlítur maður að taka mark á því.

Umheimurinn tekur ekki lengur mark á okkur, við erum orðin bananalýðveldi, megum víst þakka fyrir að færeyingar vilji kaupa raforku af okkur.

Nefndarmenn skilanefnda bankanna sem eiga að rannsaka klúðrið, sumir eru að rannsaka sitt eigið klúður,  taka 25000 kall á tímann, takk fyrir kærlega.

 

10 fyrirtæki á dag mun fara á hausinn næsta árið, hvað tekur við þá er spurning, kannski verða bara engin fyrirtæki til þá í landinu, til að fara á hausinn.

Hagfræðingurinn  áðurnefndi átelur stjórnvöld fyrir að reyna ekki að endurvekja traust landsins gagnvart umheiminum, við munum þurfa á því að halda.

Í staðinn siglum við sofandi að feigðarósi og ekkert heyrist lengur í Röddum fólksins.

Og enn einu sinni alveg makalaust fréttamat Stöðvar 2 og maður minnist nú ekki á Ísland í dag ógrátandi. Engin stjórnmálaumræða þar þessa vikuna. Það er bara kannski einhver gúrkutíð í fréttunum þessa dagana.......? og Sigrún Ósk og Sindri brosa sínu breiðasta og bjóða okkur í matreiðslutíma til hennar Friðrikku sem að er víst eitthvað tengd Baugi.......


Davíð og umheimurinn

Þetta sagði Davíð Oddsson í mars 2008 við breskan blaðamann sem var að gera fréttaskýrindaþátt um ástandið á Íslandi. Sumum bretum var sem sagt ekki farið að lítast á blikuna. Davíð Oddsson segir í viðtalinu: "that economy of Iceland is extraordinary good", ástand efnahagsmála á Íslandi væri alveg stórkostlegt......... Þetta viðtal birtist, heyrðist og sást á eyjan.is í gær undir fyrirsögninni: 3.mars 2008, allt í sómanum:

"Hér er Davíð Oddsson í viðtali um stöðu íslensku bankanna og hið himinháa skuldatryggingaálag á þá. Hann kemur inn á sirka 5.50 mín.

Þetta er frá 3. mars 2008.

Hann segir að bankarnir séu mjög traustir og sömuleiðis íslenska hagkerfið og að enginn hætta sé á öðru en að innlán í íslenskum bönkum á erlendri grund séu tryggð.

Svo er þarna viðtal við Landsbankamann. Merkilegt hvað mantran um að íslensku bankarnir kæmu ekki nálægt undirmálslánunum bandarísku virðist hafa dugað þeim vel, enda var hún mikið notuð."   http//www. eyjan.is


Fátæktarbaslið blasir við okkur að öllu óbreyttu

Það var kominn tími til að maður fengi að heyra sannleikann sem að blasir við þjóðinni ef að ekkert verður að gert. Það hafa sumir hæðst að þeim mótmælendum sem að eru þrausegir og halda áfram mótmælum, nú við Seðlabankann. Sumir segja að stór hluti þjóðarinnar sé með Davíð Oddsson á heilanum og eigi að finna sér eitthvað þarfara að gera, en að mótmæla setu þessa manns í Seðlabankanum.

En núna í Kastljósinu blasir blákaldur sannleikurinn við: Viðtal við 2 hagfræðinga Gylfa Zoega og Jón Daníelsson sem að hafa tekið saman skýrslu um orsök bankahrunsins. Allt of miklir peningar í umferð sem að ekki voru notaðar til að setja út í atvinnulífið. Lán tekið til að taka lán og o.s.frv.

Það sem er athyglisvert í viðtali við þessa hagfræðinga er það sem að Jón Daníelsson segir að það sé ekkert mál með verðbólguna, í kreppuástandi hjaðni verðbólga yfirleitt. Ástæðan fyrir því að AGS vilji ekki lækka stýrivexti hér á landi, sé sú að AGS treysti ekki þeim sem að eru við völd hér á landi.

Nefndi meira að segja að það geti endað þannig, að við stöndum í þeim sporum að vera fátæk, fámenn eyja norður í Atlantshafi. Fólk er þegar byrjað að flýja land, þetta er bara byrjunin. Með setu sinni í Seðlabankanum er Davíð að fresta því að Ísland geti endurheimt traust sitt erlendis, verða aftur þjóð á meðal þjóða.  Hverjar verða afleiðingarnar?

Það er hlegið að Davíð Oddssyni erlendis og gert grín að okkur sem þjóð. Einstaka þjóð vorkennir okkur...........


Skjaldborgin um heimilin ........

Tilvitnun í færslu á eyjan.is:

"Aðalstjórnendur Baugs, þeir Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformaður og Gunnar Sigurðsson forstjóri, hafa gert samkomulag við skilanefnefnd Landsbankans um að þeir haldi stjórnarsætum sínum hjá fjórum verslanakeðjum félagsins, House of Fraser, Iceland, Aurum og Hamleys.

Á fréttavefnum thisismoney.co.uk kemur fram að samkomulagið hafi verið gert  sl. fimmtudagskvöld og Baugur svo tilkynnt daginn eftir að félagið væri hætt við að mótmæla því að BG Holding færi í greiðslustöðvun.

Samkomulagið, sem færir Jóni Ásgeiri 20.000 pund á mánuði, um 3,3 milljónir króna. Starfsmenn í höfuðstöðvum Baugs við Bond Street í London eru sagðir slegnir. Þeir standi frammi fyrir uppsögnum með litlar vonir um útborgun."

Ég spyr hvort að sú ríkisstjórn sé traustsins verð sem velur Jón Ásgeir Jóhannesson sem sinn mann, meðan fólk missir vinnu og eignir sínar vegna ábyrgðarleysis hans?  Með 3.3 millur á mán., þyrlu o.fl. o. fl.

Er það á þennan hátt sem á að slá skjaldborg um heimilin í landinu, eins og þykir svo fínt að segja núna?

Það er alveg auðséð að það á ekkert að gera til þess að draga úr spillingu í banka- og valdakerfi þessa lands. Nú sem aldrei fyrr er nauðsynlegt að fólk  haldi áfram að mótmæla þeim siðferðislega viðbjóði sem að tröllríður nú okkar þjóðfélagi.


Elítuviðbjóður

Já er þetta ekki alveg yndislegt, Davíð ætlar ekki að fara úr Seðlabankanum, Jón Ásgeir í stjórn áfram við völd í sínu fyrirtæki þrátt fyrir allt sitt fallerí og fallera. Bréfið sem að Davíð sendir í dag til  Jóhönnu Sigurðardóttir forsætisráðherra er þess eðlis að manni er hreinlega orða vant. Var að lesa þetta núna á http://www.eyjan.is/. Hvað telur þessi maður sig eiginlega vera. Er hann í Guða tölu eða........?

Playboy og bresk fegurð

Playboy og bresk fegurð í Bláa lóninu hafa vera mikið áhugamál stjórnendanna Ísland í dag, síðustu tvo daga. Engin fegurðarsamkeppni samt í þættinum í kvöld. Maður hélt nú að það væri nú ekki beinlínis nein gúrkutíð í fréttamennsku þessar vikurnar. Það var t.d. ný ríkisstjórn að taka við völdum í Stjórnarráðinu.

Ég verð að segja að ég sakna mikið gömlu þáttastjórnandanna Þorfinns Ómarssonar, Sölva Tryggvasonar og Svanhildar Hólm.

Núna hefur Ísland í dag lengst um helming, en magn er víst ekki alltaf sama og gæði. Nú orðið færi ég mig fljótlega yfir á ríkisstöðina til að athuga með áherslumál Kastljóss. Þeir hafa verið duglegir þar að fylgja málum eftir.

Var að reyna áðan að horfa á Ísland í dag, en gafst upp. Þar var byrjað að fjalla um nýjustu uppfærslu á Kardemommubænum sem er væntanleg á fjalirnar núna í febrúar. Þar sem að enginn krakki er á heimilinu var ekki áhugi fyrir viðfangsefninu.

Sá þó að þar voru að leika Spaugstofuleikarar Örn Árnason, Karl Ágúst Úlfsson og eitthvað heyrðist í Sigga Sigurjóns líka.

Bíð nú spennt eftir laugardagsspaugstofunni sem mun áreiðanlega gera atburðum vikunnar betur skil en Ísland  dag.


Skoðunarleiðangur Jóhönnu

Það er eins og maður sé að reyna að jafna sig eftir 4 mánaða samfelldan hvirfilbyl. Hvirfilbylurinn byrjaði í byrjun október eins og öllum er kunnugt, og það hvín aðeins í honum enn. Við erum jú að tala um þjóðfélagið okkar sem er komið með nýja ríkisstjórn, sem að svo margir töldu að væri upphafið á nýju lífi hér á Fróni, erfiðu lífi, en nýju. Hvað blasir svo við?

 Það var hálf vandræðalegt að horfa á Kastljósið á mánudagskvöldið og hlusta á Jóhönnu Sigurðardóttir segja að hún ætlaði að skoða þetta og skoða hitt, þessi ríkisstjórn er kannski í skoðunarleiðangri en ekki í björgunarleiðangri. Nokkur furða að Þóra Arnórsdóttir fréttamaður Kastljóss væri farin að fórna höndum yfir svörum forsætisráðherrans við spurningum hennar.

Eftir gærdaginn verð ég að viðurkenna að ég er ekki ýkja bjartsýn. Lausnirnar til bjargar heimilunum lágu á skrifborði fyrrverandi félagsmálaráðherra/núverandi forsætisráðherra þegar stjórnarsamstarfinu var slitið. Viðkomandi skýrsla hafði farið úr hendi þáverandi dómsmálaráðherra til annarra ráðuneyta og beið þess að verða samþykkt. Sunnudaginn 1. feb. sakar Jóhanna, Björn Bjarnason um slóðaskap í viðbrögðum til bjargar heimilunum. Slóðaskapurinn var mikill hjá fyrrverandi ríkisstjórn, Jóhanna sat í henni ásamt öllu hinu liðinu. Það er vonandi að Jóhanna finni  eitthvað nýtilegt í þessarri skýrslu, ekki veitir af að finna einhverjar lausnir.

Það ríkti mikil bjartsýni hér á okkar kalda landi hér í janúar. En nú er eins og allur vindur sé úr. Það er alla vega mín tilfinning. Það er spurning hvort að Raddir fólksins ætli að halda áfram að mótmæla, það er ennþá hægt að reyna að ýta Davíð og co. út, en eftir leynisímtal Jóhönnu og Dabba, vita held ég allir, að Davíð labbar ekki út fyrr en frumvarpið hennar Jóhönnu verður samþykkt á Alþingi.

Ég ætla bara að vona að það fari einhver stjórnmálaöfl að sýna sig, sem að hafa snefil af siðferði og ábyrgðartilfinningu, annars er hætt við að minningarorð þessa kafla úr Íslandssögunni verði eitthvað á þá leið: Fólkið reis upp og mótmælti en (janúar)byltingin át börnin sín.


Byrjunarerfiðleikar og Davíðsvesen

Síðustu vikur hafa reynt mikið á þjóðina. Mikið hefur verið lagt á sig til þess að fá fram breytingar og loksins þegar að maður hélt að nú hefði eitthvað áunnist, blasir raunveruleikinn við:

 Formaður Framsóknarflokksins með vondan fnyk, þetta átti að vera maðurinn sem að myndi breyta ímynd flokksins. Þeir eru seinheppnir Framsóknarmennirnir.

Össur ákveður að ráða til sín aðstoðarmann með fortíð frá hinum fræknu útrásarvíkingum sem að komu þjóðinni á hausinn, sérlegur aðstoðarmaður forsetans í útrásarmálum hans og áfram skal haldið.

 Kristjáns Guy Burgess orðinn sérstaklegur aðstoðarmaður Össurar,  ja hérna. Ónei það á ekkert að breytast hér frekar en fyrri daginn.

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra telur sig bara ekki geta fellt niður skuldir hjá fólki. Var hann ekki annarrar skoðunar fyrir mánuði eða svo?

Og flestir ráðherrarnir búnir að ráða til sín nýja ráðuneytisstjóra, voru þeir sem að fyrir voru, vanhæfir?  Eða þurfti bara að koma vini sínum að,  þó að það væri nú kannski ekki nema tímabundið?

Og Davíð neitar að fara............ þrátt fyrir 12 mánaða biðlaunapakka. Mikið hlítur að hlakka í Davíð núna. Ríkisstjórnin byrjar í þrætum og basli og hann er sko áreiðanlega ekki tilbúinn til þess að auðvelda þeim framhaldið. Ætlar hann ekki koma heim frá útlandinu í vikulokin? Heiðra okkur með nærveru sinni.

En við skulum bara vona að þetta séu einhverjir byrjunarerfiðleikar fyrir blessaða skammtímastjórnina okkar.


Heilsa - vefjagigt

Hæ, hæ 

Ég ætla nú ekki að byrja á neikvæðu nótunum, en hvernig væri það að einhverjir þarna úti myndu tjá sig um þennan sjúkdóm, þ.e. vefjagigt. Maður verður jú að reyna að vera hress og glaður. Mér skilst nefnilega að það sé hægt að lifa prýðilegu lífi með þennan sjúkdóm. Gaman væri að geta deilt reynslusögum með slíkum hetjum.


« Fyrri síða

Um bloggið

Stjórnmál, lífsmáti, heilsa

Höfundur

Þórkatla Snæbjörnsdóttir
Þórkatla Snæbjörnsdóttir
Er kona á besta aldri sem hefur áhuga á öllu skemmtilegu, bókum, tónlist o.fl. o.fl.
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband